Birkikvistur - Spiraea sp.

Laugardagur, 21. febrúar 2015 - 17:15

Birkikvistur er mjög vinsæll hér á landi og hefur verið mikið gróðursettur í garða. Hann er auðræktaður, harðgerður og gríðarlega blómríkur. Birkikvistur fær ótrúlega fallega haustliti sem kemur út í gulum, blöndu af gulu og rauðu og eldrauðum blöðum.

Hann verður verður um meter á hæð og breidd og blómstrar hvítum smávöxnum blómum á fyrraárs greinum. Nokkuð er um að ófaglærðir “garðyrkjumenn” klippi blómgunina í burtu sökum vankunnáttu sinnar. Þá missa garðeigendur af fallegri blómgun fyrri hluta sumars. Því mælum við ávallt með að leita til skrúð- eða garðyrkjufræðinga þegar kemur að trjáklippingum.  Trjáklippingar á birkikvisti er smá handavinna ef við ætlum að halda í góða blómstrun. Birkikvistur hentar vel sem stakstæður í beði, sem runni, í raðir og klippt sem óklippt í limgerði. Einnig hefur hann verið notaður mikið í steinahæðir og til að binda jarðveg í halla. Hann þrífst vel í hálfskugga, undir stórum trjám og er vinsæll í kerjum á sólpöllum.