Alpareynir - Sorbus Mougeotii
lpareynir - Sorbus Mougeotii (Munkareynir) Merking: Sorbus er sennilega dregið af sögninni sorbeo: að sjúga upp, kyngja eða gleypa. Mougeotii þýðir munkur. Heimkynni Alpareynis er í Norður Evrópu og Alpafjöllunum. Hann getur orðið 20 m. hár í heimkynnum sínum, en verður 6 – 8 m. hár á Íslandi. Kjörlendi hans er í djúpum frjóum og meðalrökum jarðvegi. Vaxtarlagi Alpareynis er lýst sem stórum runna eða keilulaga tré. Greinarnar eru rauðbrúnar og yfirleitt með hvassa greinavinkla. Eru reglulegar og útstæðar. Árssprotar eru rauðbrúnir og börkurinn er sléttur og ljósgrár. Brumin er dreifð og oddhvöss á greinunum og brumhlífðarblöðin eru rauðbrún út í grænt og með léttum dúnblæ.
Hvernig er hægt að fjölga þessu glæsitré?
Yfirleitt er Alpareynir fjölgað með fræi en hægt að fjölga líka með sumargræðlingum. Alpareynir er töluvert harðger en getur kalið á vorin í uppvextinum. Hann er hægvaxta og er auðveldur í ræktun.
Trjáklippingar: Hann er seltuþolinn, auðvelt er að klippa í einstofna tré og myndar hann þá góða og breiða krónu. Hægt að nota í stór limgerði eða sem stakstætt tré. Náskyldur Silfurreyni (Sorbus intermedia) og Goðareyni (Sorbus latifolia) og er mjög svipaður Sorbus anglica.
Blóm Alpareynisins eru tvíkynja og hann er því sjálfsfrjóvgandi. Kjöraðstæður eru í léttum sandkenndum jarðvegi sem heldur þó vel raka. Þolir að vera í hálfskugga en það kemur þá alltaf niður á blómgun. Oftast notaður stakstæður, eða í þyrpingar. Hægt að nota líka í klippt og óklippt limgerði. Berin er æt, bæði hrá og elduð. Ef þau eru étin í byrjun sept eru þau ekki alveg þroskuð og hafa þó örlítið sætt bragð. Best er þó að geyma berin á þurrum og köldum stað þar til þau eru nánast rotin. Þá eru þau best á bragðið, hafa jafnvel svipað bragð og bestu ávextir. Berin eru um 8-10 mm að þvermáli. Við náum þó yfirleitt ekki í berin því fuglarnir eru sólgnir í þau.
Talið er að Danir hafi farið að framleiða sorbus mougeotii (Alpareyni) í stað sorbus intermedia (Silfurreyni) því hann fékk á sig svo mikinn spunamaur og geislablettasvepp, en héldu þó áfram að selja hann til okkar og á aðra staði sem Silfurreyni. Sumir myndu nú segja að það væru vörusvik...
Fræin innihalda vetnis blásýru. En það er innihaldsefnið sem gefur Möndlum hið einkennandi bragð. Þetta ætti samt að vera fullkomlega öruggt í hóflegum skömmtum, nema ef fræið er mjög beiskt á bragðið. Í smáum skömmtum hefur verið sýnt fram á að vetnis blásýran örvi öndun og bæti meltingu. Það er einnig fullyrt að það sé til góðs í meðferð á krabbameini. Í óhófi hinsvegar getur þetta leitt til öndunar misbrests og jafnvel dauða.
Tinna Björk Halldórsdóttir garðyrkjufræðingur